Vegahandbókin

English ... Íslenska ... Deutsch ...
Veftré  |  Hafa samband  |  Augl.
3000 áhugaverðir staðir á Íslandi - með:
Texti Kort Ástand vega Veður Vefsíða Framburður
Sláðu inn í leitargluggann, til hægri, einn af 3000 umfjöllunarstöðum Vegahandbókarinnar ... og þú færð upp eins konar heimasíðu með upplýsingum um þann stað sem þig langar að skoða.

Fréttir

Staður vikunnar - Strákar á Selöldu

Selalda er forn eldstöð skammt frá Krýsuvíkurbergi. Veðursorfni móbergshyrggurinn á myndinni heitir Strákar.

Hleðslurnar undir Strák eru það sem eftir er af útihúsi sem tilheyrði bænum Fitjum. Sunnan við Stráka, ekki langt frá, eru tóftir bæjarins.

Í nágrenninu er að finna ýmsa skemmtilega skúlptúra og kynjamyndir.

Til að sjá Stráka er ekið út af Suðurstrandavegi vegslóða í átt að Krýsuvíkurbergi.

Staður vikunnar - Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi

Bjarnarhöfn á norðanverðu Snæfellsnesi er þekkt fyrir hákarlaverkun og Hákarlasafn, sem gaman er að heimsækja.

Hákarlsverkunin hefur verið í fjölskyldunni í margar kynslóðir og á safninu er sagt frá sögu, veiðum og verkun hákarlsins og geta gestir gengið upp að hákarlahjallinum þar sem hægt er að sjá girnilegan hákarl í verkun. Hægt að koma við og kaupa hákarl og harðfisk.

Á Bjarnarhöfn er falleg litil kirkja sem var byggð 1856. Kirkja hefur verið á staðnum allt frá 12. öld.

Altaristaflan er hið mesta listaverk talin vera frá 1640. Hún er áheitagjöf frá hollenskum sjómönnum sem stunduðu fiskveiðar við landið á 17. öld.

Staður vikunnar - Snæfellsjökull

Snæfellsjökull (1.446 m) setur sterkan svip á umhverfi sitt og sést hann vel frá Reykjavík en loftlínan er 120 km.

Dul­spak­ir menn telja Snæ­fells­jök­ul dul­magn­að­an öll­um fjöll­um frem­ur. Hægt er að ganga upp á Snæfellsjökull og tekur gangan, á hæsta tind­inn, Þúf­ur, um 5–7 klst og er mjög líkamlega krefjandi.

Snæfellsjökull er sögusvið bókarinnar Leyndardómar Snæfellsjökuls eftir Jules Verne, en söguhetjan ferðast að miðju jarðarinnar frá jöklinum. Einnig gerist skáldsagan Kristnihald undir Jökli, eftir Halldór Laxness, á þessum slóðum.

Snæfellsjökull er hluti af þjóðgarðinum Snæfellsjökli sem stofnaður var árið 2001.

Staður vikunnar - Akureyrarvaka

Þema Akureyrarvöku að þessu sinni er LEIKA - SKOÐA - SKAPA. Áhersla verður lögð á að fá íbúa til að taka þátt og njóta. Akureyrarvakan verður haldin dagana 26. - 28. ágúst.

Akureyrarvaka hefst formlega í Lystigarðinum föstudagskvöldið 26. ágúst með dagskránni Rökkurró.

Að henni lokinni mun hvert atriðið reka annað svo sem draugaslóðin í innbænum, götulist, vísindasetur, líflegt Listagil, friðarvaka og margt, margt fleira.

Hápunktur Akureyrarvöku er á laugardagskvöldið um kl. 21:30 þegar friðarvaka hefst í kirkjutröppunum og síðan stjórnar Ingólfur verðurguð Gilsöngur í Listagilinu.

Frekari upplýsingar um dagskrána er að finna á heimasíðunni visitakureyri.is

Staður vikunnar - Glaumbær í Skagafirði

Glaumbær í Skagafirði, sem er hluti af Byggðasafni Skagfirðinga, hlaut Íslensku safnaverðlaunin í ár og er safnið vel að þeim verðlaunum komið.

Byggð hefur verið í Glaumbæ frá því að sögur hófust, meðal annars bjuggu þar hjónin Þorfinnur Karlsefni og Guðríður Þorbjarnardóttir. Á meðan Guðríður var í pílagrímsferð til Rómar reisti Snorri, sonur hennar, fyrstu kirkjuna í Glaumbæ.

Í Glaumbæ er stór torfbær, sem búið var í til 1947, þar er sýningin Mannlíf í torfbæjum. Tvö 19. aldar timburhús, Áshús og Gilsstofa, hafa verið flutt að Glaumbæ.

Safnasvæðið er opið alla daga yfir sumarið frá 9:00 til 18:00. Frekari upplýsingar eru á heimasíðu Glaumbæjar.

Staður vikunnar - Njálurefilinn á Sögusetrinu á Hvolsvelli

Staður vikunnar að þessu sinni er Sögusetrið á Hvolsvelli þar sem Njálurefilinn er að finna.

Njálurefilinn er 90 metra langur útsaumaður refill (veggteppi) þar sem Brennu-Njálssaga er sögð og sýnd frá upphafi til enda. Stofnendur og eigendur refilsins eru Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir og Christina M. Bengtsson. Refillinn er hannaður af Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur og fyrsta sporið var tekið í byrjun febrúar 2013.

Refillinn er nú rúmlega hálfnaður. Yfir sex þúsund saumakonur og -karlar frá öllum heimshornum hafa tekið sporið. Mjög gaman er að geta skilið eftir sig nálarspor í þessum fræga refli og komið síðar með barnabörnin og bent á sporin.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu refilsins: www.njalurefill.is

Drengir vikunnar - Íslenska landsliðið í fótbolta

Drengir vikunnar eru svo sannarlega "strákarnir okkar" í íslenska landsliðinu. Þeir hafa sýnt og sannað að með eljusemi, samtakamætti og bjartsýni, þá er hægt að láta fjarlægustu drauma rætast.

Íslenska þjóðin er stolt af ykkur, þið eruð flottar fyrirmyndir.

TIL HAMINGJU STRÁKAR

Bók vikunnar - Ný útgáfa af Vegahandbókinni

Sumarið er komið og Vegahandbókin fylgir sumarkomunni. Í meira en 40 ár hefur Vegahandbókin verið ómissandi ferðafélagi landsmanna og á hún fastan sess í hanskahólfi margra bíla.

Vegahandbókin er lykill að landinu, stútfull af fróðleik í máli og myndum og með kortum vísar bókin til vegar.

Vegahandbókin kemur út annað hvert ár á íslensku og hitt árið á ensku. Í ár er íslenska útgáfan nýuppfærð með mikið af nýungum, til dæmis upplýsingar um heitar laugar og heilsulindir. Með því að skanna QR kóða fæst GPS staðsetning lauganna, myndir og lýsing á stöðunum. Hægt er að fræðast um ferðir Fjalla-Eyvindar, hlusta á þjóðsögur eða forvitnast um hesta-, sauða-, kúa- eða hundaliti svo aðeins fátt eitt sé nefnt.

Með bókinn fylgir Vegahandbókar App þar sem hægt er að finna alla staði sem eru í bókinni ásamt þúsundum þjónustuaðila um allt land.

Vegahandbókin fæst á bensínstöðvum N1, Olís og bókabúðum. Í bókabúðum er hægt að skila inn eldri bók og fá kr. 1.500 afslátt á nýrri.

Staður vikunnar - Sigling með Sæferðum

Breiðafjörðurinn er þekktur fyrir eyjarnar óteljandi, einstaka náttúrufegurð, fjölbreytt fuglalíf og söguslóðir. Reyndar er nýbúið að slá tölu á eyjarnar og eru þær sagðar um 5.000.

Breiðafjörðurinn er hrein fuglaparadís og frábær staður fyrir áhugamenn um fuglaskoðun og nú er einmitt varptíminn að byrja.

Sæferðir bjóða upp á ýmiskonar útsýnisferðir um þetta fallega svæði og gefst farþegum tækifæri til að skoða náttúru og fugla svæðisins í návígi og smakka hráa hörpuskel beint af hafsbotni!

Staður vikunnar - Reykjanesviti

Reykjanesviti er á syðst á Reykjanesi, beygt út af vegi 425. Núverandi viti var reistur 1907. Hann er 31m hár og stendur á 22m háum stalli.
Nágrenni vitans leynir á sér, fjölbreytileiki náttúrunnar og útsýni er einstakt.

Mjög mikill jarð­hiti, brenni­­steins– og leir­hver­ir eru á svæðinu, kunn­ast­ur hver Gunnuhver, kenndur við konu er gekk aft­ur og sótti á fólk og fén­að.

Eldri fréttir

safetravel.is inspiredbyiceland.is

Vörurnar okkar

Vörurnar okkar

Leita

Staðir


Þjónusta
 

Bók

Vegahandbókin

Vegahandbókin á að baki 40 ára feril í bílum landsmanna. Bókin hefur verið í stöðugri uppfærslu og endur nýjun frá fyrstu útgáfu. Í máli, myndum og með kortum er ferðalangnum vísað til vegar og hann fræddur á ferð sinni um landið.

Lesa bók

Sölustaðir

Copyright © Vegahandbókin ehf.
Base map copyright © LMI
Layout based on YAML.